Minnast mótunaráranna á Eiðum

Haldið verður upp á það um helgina að 100 ár eru síðan Alþýðuskólinn á Eiðum var settur í fyrsta sinn. Sérstök áhersla verður á tónlist í dagskrá helgarinnar auk þess sem þar verður frumsýnd heimildamynd um sögu skólans.

„Við ákváðum að halda upp á daginn fyrir tveimur árum, þetta ár hefur verið mjög annasamt en vinnan mjög gefandi,“ segir Bryndís Skúladóttir, formaður Eiðavina.

Alþýðuskólinn var settur í fyrsta sinn þann 20. október árið 1919 og Eiðavinir standa af því tilefni fyrir þriggja daga dagskrá. Hún byrjar í kvöld með kráarkvöldi þar sem tónlistarmennirnir Ester Jökulsdóttir og Jónas Sigurðsson koma fram, en Jónas hóf sinn tónlistarferil á Eiðum.

Heimildamyndin er þrekvirki

Á morgun verða sýnd málverk og munir úr eigu skólans, haldnir örfyrirlestrar um ýmislegt sem tengist skólastarfinu og frumsýnd heimildamynd um sögu skólans áður en efnt verður til hátíðarkvöldverðar og slegið upp balli með hljómsveitum úr skólanum.

Heimildamyndin er gerð af Guðmundi Bergkvist, kvikmyndatökumanni hjá RÚV og fyrrum nemenda við skólann með stuðningi Eiðavina. „Þessi mynd er þrekvirki sem hefur verið nokkur ár í undirbúningi. Við höfum stutt við gerð hennar enda fellur hún, líkt og dagskráin um helgina, vel að markmiði félagsins um að halda sögunni á lofti.“

Tónlistarlífið í forgrunni

Á sunnudag verður hátíðardagskrá þar sem Ingunn Snædal og Magnús Þór Jónsson spinna út frá setningarræðu Ásmunda Guðmundssonar, fyrsta skólameistarans. Tónlist verður einnig fyrirferðamikil í dagskránni. „Tónlistarlífið blómstraði hér. Það voru stundum nokkrar hljómsveitir starfandi meðal nemenda skólans hverju sinni,“ segir Bryndís.

Bryndís býst við miklu fjöri um helgina enda hafa um 100 manns skráð sig í hátíðarkvöldverðinn. „Hér komu unglingar víða af Austurlandi, einkum minni stöðunum og voru mest 140 saman í hóp. Þetta voru mikil mótunarár í lífi þeirra og flestum leið vel hér í þessu stórkostlega umhverfi.“

Alþýðuskólinn starfaði undir eigin nafni fram til ársins 1995 að Menntaskólinn á Egilsstöðum tók við framhaldsskólanámi þar sem lauk árið 1998.

Pönk og ofurhlaup

Ýmislegt fleira er við að vera um helgina. Í Egilsbúð í Neskaupstað verður annað kvöld haldin pönkhátíðin Orientu Im Culus. Þar koma fram hjómsveitirnar DDT skordýraeitur, Máni and the Roadkillers, Gróa og Fræbblarnir.

Þeir sem vilja taka daginn snemma geta mætt á náttúruhlaupanámskeið sem ofurhlauparinn Þorbergur Ingi Jónsson úr Neskaupstað heldur á vegum UMF Þristar. Hist verður á bílastæðinu við Selskóg við Egilsstaði klukkan 10 í fyrramálið. Námskeiðið inniheldur hlaupastíls- og brekkuæfingar og fræðsla um eitt og annað sem viðkemur hlaupum í náttúrunni.

Þá spilar körfuknattleikslið Hattar við Álftanes á útivelli í fyrstu deild karla í kvöld. Kvenna- og karlalið Þróttar fara og spila tvo leiki hvort við HK í Mizunu-deildunum í blaki.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar